News

Bárður Mýrdal

21.07.2017

Nýlega var komið með fullorðinn lunda til okkar í Sæheimum, sem þarf að hreinsa áður en hann fær frelsi á ný.

Fyrir nokkru kom hann að húsi einu í Vík í Mýrdal og bar sig aumlega. Var tekið höfðinglega á móti honum og fékk hann humar og annað góðgæti í gogginn. Eftir nokkra daga virtist hann vera orðinn vel hress og var því gefið frelsi á ný. Næsta dag var hann mættur aftur við þetta sama hús. Við nánari athugun kom í ljós að hann var með smá fitu í fiðrinu og blotnar því þegar hann fer í sjóinn og á þess vegna ekki auðvelt með að finna sér æti.

Nú er hann kominn í Sæheima þar sem hann verður hreinsaður og síðan sleppt þegar hann er tilbúnn til þess. Hann er ótrúlega gæfur af villtum lunda að vera. Hann röltir hinn rólegasti um skrifstofuna og situr jafnvel á öxlum starfsmanna safnsins. Okkur finnst ekki ólíklegt að hann hafi verið innan um fólk í einhvern tíma þegar hann var pysja. Lundinn fékk nafnið Bárður Mýrdal  í höfuðið á bjargvætti sínum og Mýrdalnum.

Lilja langvía

18.07.2017

Ferðamenn af skemmtiferðaskipi frá Ocean Diamond björguðu litlum langvíuunga í gær og komu með hann til okkar í Sæheimum. Voru þau við Ystaklett í litlum slöngubát og komu auga á ungann þar sem hann veltist um í briminu við klettinn. Náði leiðsögumaður þeirra að teygja sig eftir unganum. Unginn var fljótur að jafna sig eftir volkið. Ung stúlka sem stödd var á safninu gaf unganum nafnið Lilja. Hún étur orðið ágætlega og hleypur um gólfið á skrifstofunni en finnst samt allra best þegar einhver nennir að halda á henni.

Langvíuunginn Lilli sem búinn er að vera á safninu í nokkra daga, þykist eiga skrifstofuna skuldlausa og ræðst á Lilju með frekju. Einnig ræðst hann á lundana okkar, sem hlaupa undan honum þó þeir séu miklu stærri. 

Rituungar

12.07.2017

Síðustu vikur hefur verið komið með nokkurn fjölda rituunga sem fallið hafa úr hreiðrum sínum í ritubyggðinni í Skiphellum. Þeir eru allir mjög smáir og sumir voru mjög veikburða við komuna á safnið. Það eru oftast eldri systkyni sem hrinda þeim út úr hreiðrinu en krakkarnir í Eyjum fara undir byggðina og bjarga ungunum. Nú eru meira en 20 ungar í eldi hjá okkur í Sæheimum.

Langvíuungi

29.06.2017

Þessi litli langvíuungi féll út af syllunni sinni í Ystakletti og var svo heppinn að bátur frá Rib Safari átti leið hjá. Var honum bjargað upp út sjónum og komið til okkar í Sæheimum. Fékk hann nafnið Lilli.

Strákar með krabba

13.06.2017

Þessir strákar komu með nokkra bogkrabba sem fengust í krabbagildru í Klettsvík og færðu Sæheimum að gjöf. Strákarnir heita Guðjón Kristinn Davíðsson og Magnús Jónsson og eru þeir báðir 10 ára. Krabbarnir voru settir í eitt af búrum safnsins sem er nýuppgert. Þar eru þeir nú í góðu yfirlæti með nokkrum marhnútum sem voru gefnir safninu eftir dorgveiðikeppni Sjóstangveiðifélags Vestmannaeyja, sem fram fór um síðustu helgi. Þökkum við bæði strákunum og Sjóstangveiðifélaginu fyrir góðar gjafir.

Sjómannadagurinn

11.06.2017

Í tilefni af sjómannadeginum verður ókeypis aðgangur í Sæheima -Fiskasafn í dag.Við óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og þökkum fyrir gjafirnar í gegn um tíðina.

Starraunginn Skrækur

04.06.2017

Rétt í þessu var komið með lítinn starraunga í Sæheima sem fallið hafði úr hreiðri sínu á Vesturveginum. Hann tók strax við æti étur ágætlega. Hann heimtar sífellt meiri mat með miklum skrækjum og fékk hann því nafnið Skrækur.

Glæsileg gjöf

01.06.2017

Drangavík VE kom að landi klukkan 4 í nótt með fjölda fiska og annarra sjávarlífvera sem áhöfnin færði Sæheimum að gjöf. Komu þeir meðal annars með tindabikkjur, humra, ígulker, sæbjúgu, krossfiska, skessukrabba, nornakrabba, sæfífla og skötusel. Er þetta í sjötta skiptið á nokkrum vikum sem þeir koma með lifandi dýr til okkar á safnið og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Það er alltaf spennandi að sjá hvað þeir koma með að landi.

Drangavíkin með tvo tröllakrabba

22.05.2017

Áhöfnin á Drangavík VE kom færandi hendi er þeir komu að landi í gærkvöldi. Þeir gáfu Sæheimum tvo tröllakrabba, nornakrabba, kolkrabba og krossfiska. Þeir höfðu haldið tröllakröbbunum á lífi í rúma viku og þótti sumum þeir bjartsýnir að halda að krabbarnir myndu lifa þangað til að þeir næðu höfn. Af því tilefni fengu þeir nöfnin Bjartur og Birta. Þeir eru nú komnir í búr á safninu og eru bara nokkuð sprækir þrátt fyrir langt ferðalag.

Tannkrabbi af Drangavík

08.05.2017

Áhöfn Drangavíkur VE kom enn og aftur færandi hendi í Sæheima. Nú færðu þeir safninu stóran og flottan tannkrabba. Einn tannkrabbi er fyrir á safninu en er hann mun minni en þessi.

Tannkrabbar eru náskyldir töskukrabba og grjótakrabba og eru þeir mjög líkir honum. Tannkrabbann má þó þekkja á tenntum geirum á skjaldarröndinni sem krabbinn dregur nafn sitt af.

Heimkynni tannkrabba eru í sjónum frá Írlandi að Kanaríeyjum og finnast þeir allt niður á 400 metra dýpi. Þeir koma einstöku sinnum í veiðarfæri báta suður af Íslandi og þegar það gerist er um að gera að setja þá í sjófyllt kar og færa Sæheimum að gjöf. 

Blágóma af Drangavík

28.04.2017

Drangavík VE kom til hafnar í morgun og var áhöfnin með þessa flottu blágómu sem þeir færði safninu að gjöf. Hún er líklega orðin nokkuð gömul og er um meter að lengd. Stærsta blágóma sem hefur veiðst við Ísland var 1,26 metri. Hún ber þess merki að hafa lent í ýmsu um ævina og er m.a. með ör á síðunni eftir sæsteinsugu.

Blágóma er skyld steinbít og hlýra og hefur fundist allt í kring um landið en er algengari í kalda sjónum fyrir norðan og austan. 

Við þökkum áhöfninni á Drangavík kærlega fyrir gjöfina.

Áhöfn Drangavíkur enn á ferð

24.04.2017

Enn og aftur hefur áhöfn Drangavíkur VE haft Sæheima í huga við veiðarnar og safnaði ýmsu spennandi í kar fyrir okkur. Í karinu mátti finna kolkrabba, humra, gaddakrabba skessukrabba, sæfífla, skötu og þessa brosmildu tindabikkju. Það eru einmitt gjafir frá sjómönnum sem skipta sköpum fyrir safnið og hafa frá upphafi lagt grunninn að starfsemi þess. Bestu þakkir fyrir góða gjöf.

Sumardagurinn fyrsti

19.04.2017

Vestmannaeyjabær býður öllum bæjarbúum að heimsækja söfn bæjarins í tilefni af sumarkomunni. Opið verður í Sæheimum á sumardaginn fyrsta klukkan 13 til 16. Allir velkomnir.

Opnunartími um páskana

12.04.2017

Opið verður í Sæheimum fiskasafni á skírdag 13. apríl kl. 13-16 og laugardaginn 15. apríl klukkan 13-16.

Drangavíkin með góða gjöf

11.04.2017

Áhöfnin á Drangavík VE kom að landi í morgun með mikinn fjölda lifandi dýra fyrir safnið. Voru þau hífð frá borði í tveimur körum og þurftu starfsmenn safnsins að flytja þau í þremur ferðum. Um var að ræða marga tugi skessukrabba, gaddakrabba og krossfiska. Einnig voru þeir með tvo stóra og flotta nornakrabba sem voru báðir um 1,3 kg að þyngd. Auk krabbanna voru í körunum þorskar, skötur og kolar. Bestu þakkir fyrir þessa flottu gjöf.

 

Kolkrabbi

10.04.2017

Áhöfnin á Vestmannaey VE kom með lifandi kolkrabba til hafnar og færðu safninu. Það voru mæðginin Ása Ingibergsdóttir og sonur hennar Ingibergur Sigmundsson sem komu með kolkrabbann á safnið. Það var mjög gott að fá kolkrabbann því að enginn slíkur var fyrir á safninu.

Keilubræður

01.04.2017

Þeir félagar Örn og Daníel lögðu krabbagildrur í Höfðavík í gær og vitjuðu .þeir um aflann í dag, Fengu þeir fjölda bogkrabba en einnig voru í gildrunni tveir keilubræður. Þessir fallegu bræður eru núna í góðu yfirlæti á safninu og kúra saman í holu undir steini.

Skrifað undir

09.11.2016

Nú um helgina var skrifað undir samning Sæheima og Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. En sjóðurinn veitti Sæheimum 400.000 króna styrk til að vinna að verkefni sem nefnist "Lundapysjur í Vestmannaeyjabæ". Byggist verkefnið aðallega á pysjueftirliti Sæheima, sem hefur verið starfrækt frá árinu 2003. Fyrsti hluti verkefninsins var að halda sýningu á ljósmyndum frá pysjueftirlitinu árin 2015 og 2016. Næsta skref verður síðan að vinna úr tölum pysjueftirlitsins frá upphafi og gera niðurstöðurnar aðgengilegar fyrir almenning. Verða þær settar inn á heimasíðu Sæheima. Margrét Lilja Magnúsdóttir og Gígja Óskarsdóttir skrifuðu undir fyrir hönd Sæheima og Hrafn Sævaldsson fyrir hönd Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. 

Fjöldi gesta um safnahelgi

07.11.2016

Um helgina var Safnahelgin í Vestmannaeyjum með fjölda viðburða á söfnum bæjarins. Í Sæheimum voru sýndar ljósmyndir sem teknar hafa verið af börnum sem komið hafa með pysjurnar sínar í pysjueftirlitið til okkar árin 2015 og 2016. Heildarfjöldi mynda er um 900 og eru þær allar sýndar í tveimur snertiskjám sem staðsettir eru í fiskasalnum. Rúmlega helmingur þessara mynda var prentaður og eru þær ýmist innrammaðar í andyri safnsins eða límdar upp á glerin í fuglasalnum og steinasalnum. Núna er safnið því talsvert ólíkt því sem fólk á að venjast. 

Sýningin var vel sótt og komu yfir 300 gestir til okkar. Almenn ánægja var með sýninguna og mun hún verða uppi næstu vikur, þannig að þeir sem komust ekki um helgina hafa tækifæri til að skoða sýninguna. Nú er komin vetraropnun á safninu og er það opið á laugardögum kl. 13 - 16. Þessar hressu stelpur voru meðal gesta safnsins um helgina.

Uppskeruhátíð pysjueftirlitsins

04.11.2016

Undirbúningur fyrir Safnahelgina er nú í hámarki í Sæheimum. Þar stendur til að opna ljósmyndasýningu á morgun, laugardaginn 5. október, klukkan 13. Um er að ræða ljósmyndir af börnum með pysjurnar sínar, sem komu í pysjueftirlitið árin 2015 og 2016. 

Árið 2015 fundust miklu fleiri pysjur en mörg árin þar á undan. Voru því bæjarbúar mjög spenntir að heyra nýjustu tölur um fjölda pysja. Sæheimar settu því inn fréttir nánast daglega bæði á heimasíðu safnsins og á facebook síðu þess. Til að eiga myndir með fréttunum var byrjað að taka einstaka ljósmyndir af börnum með pysjurnar sínar.

Við fundum fljótlega fyrir því að börnin voru spennt fyrir því að fá teknar af sér myndir og sérstaklega að fá þær síðan birtar með fréttunum á facebook síðunni. Það var því oft vandi fyrir starfsmenn að velja myndir með fréttunum, því ekki var nokkur leið að birta þær allar. Smám saman fórum við að taka  miklu fleiri myndir en við þurftum til birtingar með fréttunum og árið 2016 voru teknar myndir af nánast öllum sem komu með pysjur á safnið.

Við áttum því orðið mikinn fjölda ljósmynda af flottum krökkum með pysjurnar sínar og  aðeins lítið brot af þeim höfðu verið birtar á facebbook síðunni. Það var því ákveðið að  halda ljósmyndasýningu á safninu til að gefa krökkunum og öðrum bæjarbúum kost á því að skoða myndirnar. 

Því miður rötuðu ekki allar myndirnar á sýninguna vegna lakra gæða og biðjumst við velvirðingar á því. Þá er við ljósmyndarann að sakast, því fyrirsæturnar voru alltaf frábærar.  Vonandi fáum við tækifæri á næsta ári  til að taka myndir í stað þeirra sem misheppnuðust. Við þökkum öllum fyrirsætunum kærlega fyrir þáttökuna.

SASS veitti styrk til sýningarinnar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.