News

Lunda sleppt við Kaplagjótu

31.05.2018

Fyrir nokkrum dögum komu þeir Logi Snædal og Nökkvi Óðinsson með slasaðan lunda sem þeir höfðu fundið inni í Dal. Var hann með höfuðáverka og var greinilega vankaður. Var hann mun hressari strax næsta dag og tók þá æti. Nú hefur hann fengið að jafna sig í nokkra daga og fengið vel að éta.

Í dag var farið með lundann að Kaplagjótu og honum gefið frelsi. Hópur ferðamanna á vegum EyjaTours var á svæðinu og fylgdust þeir spenntir með.

Teistan frjáls

24.05.2018

Fyrr í vetur var komið með mikið olíublauta teistu til okkar í Sæheima, sem hafði fundist úti í Klauf. Var hún hreinsuð í tvígang en síðan tóku við strangar sundæfingar. Það tók teistuna þó nokkurn tíma að ná upp nægjanlegri fitu í fiðrið til að halda vatni frá líkamanum. En upp á síðkastið gat hún synt í langan tíma án þess að blotna og því var því ákveðið að gefa henni frelsi. Var farið með hana á svipaðar slóðir og hún fannst og henni sleppt þar.

Vankaður lundi

22.05.2018

Í gærkvöldi fannst fullorðinn lundi við Heimaklett sem var eitthvað vankaður. Finnendur hans komu með hann í Sæheima í dag til að láta líta á hann. Hann virtist hinn sprækasti og var því útskrifaður. Var honum sleppt á sama stað og hann hafði fundist.

Samningar við SASS

07.05.2018

Tvisvar á ári veitir Uppbyggingarsjóður Suðurlands verkefnastyrki til nýsköpunar, menningar og atvinnuþróunar á Suðurlandi. Sæheimar hlutu þrjá verkefnastyrki við síðustu úthlutun og fyrr í dag undirrituðu Margrét Lilja Magnúsdóttir og Örn Hilmisson samningana fyrir hönd Sæheima og Hrafn Sævaldsson fyrir hönd sjóðsins. Verkefnin sem hlutu styrk voru "Lundaafbrigði", "Pysjusýning 2018" og "Samfélagsvæðing safnanna". 

Styrkir sem þessir eru afskaplega mikilvægir fyrir söfn eins og Sæheima og gerir okkur kleyft að vinna fjölda verkefna, sem hefðu annars aldrei orðið að veruleika. Við þökkum SASS ogg uppbyggingarsjóðnum kærlega fyrir veittan stuðning.

Sumaropnun safnsins

30.04.2018

Frá og með 1. maí eru Sæheimar opnir klukkan 10 til 17 alla daga. 

Tóti er kominn í mikið sumarskap en er þó ekki alveg kominn yfir í sumarbúninginn sinn en hann er óvenju seinn þetta árið. Við sjáum þó breytingar á honum dag frá degi og verður hann von bráðar kominn í fullan skrúða.  

Sjónvarpsþáttur

30.04.2018

Við fengum frábæra heimsókn síðasta sumar þegar tökulið frá CBS news kom og fylgdist með pysjueftirlitinu hjá okkur. Þátturinn var sýndur ytra í gær. Ætla má að um 6 milljónir manna horfi á Sunday morning á CBS og er þetta því frábær kynning fyrir okkur og Eyjarnar. Augljóst er að þátturinn hefur vakið mikla athygli en við erum strax byrjuð að fá fyrirspurnir um komandi pysjutímabil sem og um lunda almennt.

Á myndinni er Aron Sindrason, sem lék eitt af aðalhlutverkunum. Sjá má þáttinn á slóðinni hér fyrir neðan:

https://www.cbsnews.com/news/a-childrens-puffin-rescue-squad-heimaey-island-iceland/

Dúfa fær frelsi

27.04.2018

Fyrir áramót var komið með dúfu í Sæheima sem var illa haldin. Hafði hún fengið einhvers konar matarolíu eða feiti í allt fiðrið og var mjög blaut og horuð. Hún tók strax vel til matar síns og hresstist fljótlega en erfiðlega gekk að hreinsa hana. Fiður hennar var nú loksins orðið hreint á ný og var henni því sleppt í garði í nágrenni safnsins og flaug hún hin ánægðasta á vit frelsisins.

Rauðsprettan hrognafull

20.04.2018

Við sögðum frá því um daginn að safninu hafi borist mjög sérstakt afbrigði af rauðsprettu. Hún dafnar vel og hefur aðlagst nýjum heimkynnum. Hún er tekin að gildna nokkuð um miðjuna og er því greinilega hrognafull. 

Skelskipti nornakrabba

20.04.2018

Krabbar eru með harða ytri skel sem ver líkama þeirra. Þegar þeir stækka lenda þeir í smá vandræðum því að skelin gefur ekkert eftir. Þá þurfa þeir að losa sig við gömlu skelina og búa til nýja og rýmri skel utan um líkamann.

Einn af nornakröbbunum okkar hafði skelskipti í nótt og á myndinni má sjá krabbann og gömlu skelina hans vinstra megin við hann. Núna er krabbinn mjúkur viðkomu. Áður en skel hans harðnar á ný mun hann dæla sjó inn í líkamann og belgja sig eins mikið út og hann mögulega getur þannig að nýja skelin verði eins rúm og mögulegt er og hann geti vaxið sem mest áður en hann þarf að hafa skelskipti á ný. 

Meðan á skelskiptum stendur er krabbinn mjög varnarlaus og þurfum við því að varna því að hinir krabbarnir í búrinu ráðist á hann. Voru þeir að endingu fjarlægðir úr búrinu. Þó að samkomulagið hjá þeim sé alla jafna nokkuð gott þá ristir vinskapurinn ekki mjög djúpt og þeim finnst ekkert tiltökumál að éta vini sína.

Gleðilegt sumar

19.04.2018

Í tilefni af sumarkomunni bauð Vestmannaeyjabær bæjarbúum að heimsækja söfn bæjarins. Margir nýttu sér þetta góða boð og alls komu 185 gestir í Sæheima í dag. Einnig fréttist af komu lundans til Vestmanneyja og er það staðfesting á því að sumarið er raunverulega komið, en ekki einungis samkvæmt dagatalinu.

Myndina tók Ruth Zolen fyrir nokkrum árum af lundapari í tilhugalífinu, en ástin mun blómstra í brekkunum næstu vikurnar.

Sumardagurinn fyrsti

18.04.2018

Sumardaginn fyrsta er opið í Sæheimum klukkan 13-16. Vestmannaeyjabær býður bæjarbúum að heimsækja söfn bæjarins sér að kostnaðarlausu og einnig er frítt fyrir þá í sundlaugina. Góður dagur framundan.

Valdabarátta

14.04.2018

Áhöfnin á Drangavík kom með glæsilegan hlýra að landi í gærmorgun og færði Sæheimum að gjöf. Var hann settur í búr með öðrum hlýra sem Drangavíkin kom með í haust. Sá sem fyrir var í búrinu lyftist allur upp þegar hann koma auga á þann nýkomna og var greinilega ekki ánægður með þessa viðbót. Hann reisti upp bakuggann og varð mjög ógnandi og réðst síðan til atlögu. Eftir nokkur slagsmál náðist sátt en greinilegt að sá gamli ræður ríkjum þarna enda búinn að vera nokkra mánuði hjá okkur og lítur á búrið sem sitt yfirráðasvæði.

Góð gjöf til safnsins

09.04.2018

Áhöfnin á Drangavík VE færði Sæheimum góða gjöf er þeir komu að landi í morgun. Um var að ræða fjölda gaddakrabba, humra, tröllakrabba og kolkrabba. Dýrin eru nú öll komin í ný heimkynni á safninu. Það er nauðsynlegt fyrir safnið að fá gjafir frá sjómönnum og erum við mjög þakklát þegar þeir hafa okkur í huga og koma færandi hendi.

Opnunartími í apríl

04.04.2018

Lóan er komin og siglt er til Landeyjahafnar, sem þýðir það að sumarið er í nánd. Sumaropnunartími safnsins, þegar opið er alla daga vikunnar,  hefst 1. maí. Fram að þeim tíma ætlum við að koma á móts við ferðamenn og aðra sem vilja heimsækja safnið, með því að hafa opið alla virka daga kl 14-15 og á laugardögum kl. 13-16. Einnig er alltaf hægt að hafa samband við okkur ef þessir tímar hentar engan vegin og við reynum þá í sameiningu að finna tíma sem hentar betur.

Kolkrabbi

28.03.2018

Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE kom að landi í gærkvöld með lítinn kolkrabba í fórum sínum, sem þeir höfðu náð að halda lifandi. Í Sæheimum var hann settur í búr þar sem annar kolkrabbi er fyrir, en sá hefur nýlega hrygnt í holuna sína. Því má telja líklegt að sá nýkomni fái ekki hlýlegar móttökur ef hann hættir sér of nærri.  

Opnunartími um páskana

28.03.2018

Á fimmtudag er safnið opið klukkan 14-15 og á laugardag klukkan 13-16. Tóti lundi og starfsfólkið óskar öllum gleðilegra páska.

Óvenjuleg rauðspretta

21.03.2018

Áhöfnin á Maggý VE færði Sæheimum góða gjöf er þeir komu að landi í gærkvöldi. Reyndist þetta vera óvenjulegt litarafbrigði af rauðsprettu, sem veiddist í Álnum milli lands og Eyja. Var hún sett í búrið með rauðsprettunum sem fyrir eru á safninu og má segja að hún hafi skorið sig verulega frá þeim. Á myndinni er nýkomna rauðsprettan við hlið ósköp venjulegrar rauðsprettu, sem reyndar sést ekki vel því hún fellur svo vel að bakgrunninum. Við höfum áður verið með rauðsprettur sem voru nánast hvítar, en enga sem líkist þessari. Það er gaman þegar sjómenn eru vakandi fyrir óvenjulegum fiskum og hafa fyrir því að færa okkur.

Haftyrðlar frá Svalbarða

09.02.2018

Óvenju margir haftyrðlar fundust á götum bæjarins núna í desember og janúar. Þeir eru mjög smávaxnir og hrekjast stundum undan vindi í hvassviðrum og jafnvel langt inn í land. Við fréttum af hópi haftyrðla sem héldu sig á sjónum austan við Heimaey og voru fuglarnir sem voru að finnast í bænum að öllum líkindum úr þessum hópi. Einn af haftyrðlunum sem fannst var með senditæki fest á sig. Við eftirgrennslan kom í ljós að það hafði verið fest á fuglinn s.l. sumar á Svalbarða. Við getum því ályktað að hópurinn austan við Eyjar sé þaðan. Þetta er nokkur langur vegur fyrir svo litla fugla.

Annar haftyrðill

08.01.2018

Í dag var komið með annan haftyrðil til okkar. Fyrir jól var hópur haftyrðla á sjónum autan við Eyjar og einhverjir þeirra hröktust líklega undan vindi og fundust á götum bæjarins. Komið var með flesta þeirra til okkar í Sæheima.

Haftyrðlar eru mjög viðkvæmir og gengur illa að halda þeim lifandi, sérstaklega vegna þess að helsta fæða þeirra eru smá krabbadýr í svifi og því vandasamt að finna rétta fæðu handa þeim. Einnig virðast þeir verða mjög stressaðir að vera í haldi. Það er því allra best fyrir þá að komast til sjávar sem allra fyrst. Á myndinni er Aron Smárason sem fann haftyrðilinn og fór hann með hann út á Hamar til að sleppa honum.

Haftyrðill

05.01.2018

Þessar systur fundu haftyrðil á Heiðarveginum, sem náði ekki að hefja sig til flugs. Þær komu með hann í Sæheima og fóru þaðan beint út í Höfðavík til að sleppa honum. Haftyrðlar eru mjög viðkvæmir og því er alltaf best að sleppa þeim við fyrsta tækifæri. Stelpurnar heita Hulda Brá, Heiða Lára og Unnur Þórdís.