News

Skólahópar í heimsókn

21.11.2014

Nú undanfarið hafa skólakrakkar í Grunnskóla og FramhaldsskólaVestmannaeyja komið í heimsóknir í Sæheima Fiskasafn. Eldri krakkarnir fá verkefni sem þau vinna á safninu en þau yngri fá tækifæri til að skoða safnið á sinn hátt, þó að þau skoði sérstaklega þann fugl og fisk sem þau eiga að læra um hverju sinni. Í dag komu krakkarnir í fyrsta og öðrum bekk í Grunskólanum. Það er alltaf skemmtilegt að fá þessa hressu og áhugasömu krakka í heimsókn.

Blóm á Heimaey

02.11.2014

Mjög blómlegt hefur verið í Sæheimum um Safnahelgina, en þar hafa verið til sýnis ljósmyndir af ýmsum blómplöntum sem finnast á Heimaey. Ákveðið hefur verið að sýningin muni standa áfram í nokkrar vikur. Nú hefur hefðbundin vetraropnun tekið gildi og er safnið einungis opið á laugardögum kl.13-16 eða eftir samkomulagi.

Ljósmyndir á húsgöflum

01.11.2014

Núna um Safnahelgina verður varpað upp ljósmyndum á tvo húsgafla í bænum. Annars vegar er það norðurgafl Sýslumannshússins þar sem fjöldi ljósmynda frá Sæheimum - Fiskasafni eru sýndar. Þar er um að ræða myndir af fuglum, fiskum o.fl. lífverum sem verið hafa á safninu. Hins vegar er það vesturgafl Saltfiskhússins og þar eru sýndar ljósmyndir frá Gísla Friðriki Johnsen sem hann tók á fyrri hluta síðustu aldar. Myndirnar verða sýndar  á kvöldin yfir Safnahelgina. Við þökkum íbúum húsanna að Heiðarvegi 13 og Nýborg fyrir að leyfa okkur að koma fyrir skjávörpum hjá þeim. Einnig eru þakkir til Menningaráðs Suðurlands sem veitti styrk til sýningarinnar.

Safnahelgin framundan.

29.10.2014

Safnahelgi Suðurlands verður haldin í sjöunda sinn um næstu helgi eða frá fimmtudeginum 30. október og til sunnudagsins 2. nóvember. Margt verður í boði þessa helgi víðs vegar um Suðurland (sjá nánar á slóðinni www.sudurland.is).

Í Sæheimum verður ljósmyndasýning af blómplöntum sem finnast á Heimaey. Ljósmyndirnar voru upphaflega teknar í tengslum við verkefni sem var unnið fyrir heimasíðu Sæheima. Þar verður hægt að skoða kort af Heimaey og skoða ljósmyndir af helstu blómplöntum sem vaxa á ýmsum svæðum eyjarinnar. Þessi hluti verkefninsins hlaut styrk frá Safnaráði. Það er svo Menningarráð Suðurlands sem veitir safninu styrk til að setja upp sýningu á þessum ljósmyndum.

Sýningin verður opin laugardaginn 1. nóvember og sunnudaginn 2. nóvember kl. 13-16.

Tóti & Tóti

20.10.2014

Þórarinn Ingi Valdimarsson kom og heimsótti nafna sinn á fiskasafninu nú á dögunum. Lundinn á safninu var nefndur í höfuðið á Þórarni Inga eða Tóta eins og hann er oftast kallaður. Lundinn var um viku gamall þegar komið var með hann á safnið og var því aðeins pínulítill dúnhnoðri. En ástæðan fyrir því að þessi litli hnoðri fékk þetta stóra nafn er sú að daginn sem hann kom á safnið stóð yfir leikur hjá ÍBV og þar skoraði Þórarinn Ingi sigurmarkið. Einn af starfsmönnum safnsins var mjög spenntur yfir leiknum og nefndi hnoðrann hið snarasta. 

Eins og sést á myndinni sem Örn Hilmisson tók af þeim þá fór vel á með þeim félögum.

Lokatölur í pysjueftirlitinu 2014

06.10.2014

Alls komu 99 pysjur í pysjueftirlit Sæheima árið 2014. Þó að pysjurnar hafi verið þrisvar sinnum fleiri en í fyrra þá er þetta langt því frá að vera gott pysjuár. Fólk sem fór í pysjuleiðangra meðan allt lék í lyndi man eftir því að hver krakki var að finna svona margar pysjur yfir tímabilið og þeir allra hörðustu fundu slíkan fjölda bara á einni helgi.

Meðalþyngd pysjanni var nokkuð góð eða 260 grömm sem er talsvert hærra en undanfarin ár. Það má því segja að í ár hafi verið fáar pysjur en nokkuð góðar. Rannsóknir sýna að þungar pysjur sem eru snemma á ferðinni hafa mun meiri líkur á að lifa af fyrsta veturinn en pysjur sem eru litlar og seint á ferðini. Við erum því vongóð um að pysjurnar í ár snúi til baka á varpstöðvarnar þegar þær hafa aldur til.

Dýralæknir til hjálpar

27.09.2014

Nú á dögunum var komið með lundapysju á safnið sem reyndist slösuð og því ekki hægt að sleppa henni til sjávar. Annar fótur hennar virtist vera alveg máttlaus og gat hún því hvorki staðið, gengið né synt. Fóturinn virtist þó ekki vera brotinn og pysjan tók vel við æti og því töldum við að hún ætti nokkuð góða möguleika á að hressast. Við vorum svo heppin í dag að einn af gestum safnsins var dýralæknir sem skoðaði fót pysjunnar. Hún staðfesti að fóturinn væri ekki brotinn og ekki heldur úr lið. Einnig sagði hún að taugar virtust óskaddaðar og blóðstreymi í fótinn virtist eðlilegt. Hún sýndi okkur æfingar fyrir pysjuna sem munu styrkja vöðvana í fætinum. Pysjan mun því verða áfram á safninu og fer daglega í sjúkraþjálfun og sundleikfimi. Þessi góðhjartaði dýralæknir heitir Karen og er frá Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Hún fær bestu þakkir frá okkur.

Kolkrabbi

24.09.2014

Áhöfnin á Gullbergi VE færði safninu þennan flotta kolkrabba að gjöf þegar þeir komu að landi í morgun. Kolkrabbar halda sig jafnan í holum sem þeir finna og eru ekki mikið að sýna sig. Þessi leyfði þó að teknar væru nokkrar nokkrar ljósmyndir áður en hann faldi sig.

Fýllinn floginn

23.09.2014

Um miðjan júlí komu ferðamenn með lítinn fýlsunga á safnið sem þeir björguðu úr hundskjafti. Hann var ósköp lítill og aumur og þótti okkur hann ekki vera líklegur til að lifa. Hann tók þó fljótlega æti og stækkaði og fitnaði heil ósköp næstu vikurnar. Hann virtist skynja að við vorum ekki óvinir heldur bjargvættir og reyndi hann aldrei að æla á fólk eins og fýla er siður. Hann var einstaklega ljúfur og skemmtilegur fugl og varð hann hændur að fólki og var í miklu uppáhaldi hjá bæði gestum og starfsfólki safnsins. 

Fýlnum var gefið frelsi í dag og var farið með hann út á Eiði þar sem fjöldi fýla heldur sig jafnan enda nægt æti að hafa. Hann virtist vera alveg tilbúinn til að halda út á hafið og tók flugið eftir að hafa sest aðeins á sjóinn. Hafði hann farið á nokkrar sundæfingar á safninu og var því nokkuð öruggur með sig á sjónum. Það var nokkur eftirsjá hjá starfsfólkinu enda skemmtilegur fugl þarna á ferðinni.

Pysjur enn að finnast

21.09.2014

Einstaka pysjur eru enn að finnast í bænum. Þessir feðgar komu með pysju númer 98 í pysjueftirlitinu en hún fannst við Vinnslustöðina í nótt sem leið.

Komnar 60 pysjur

13.09.2014

Þá eru komnar 60 pysjur í pysjueftirlit Sæheima. Þær eru því orðnar tvöfalt fleiri en í fyrra. Þessar stelpur komu með sextugustu pysjuma og voru á leiðinni út í Klauf til að sleppa henni. Þessi pysja fannst við Vinnslustöðina en pysjurnar hafa verið að finnast víðsvegar um bæinn. Flestar hafa þær verið í mjög góðu ástandi og er meðalþyngd þeirra nokkuð hærri en undanfarin ár.

Smyrill

12.09.2014

Komið var með smyril á safnið sem fundist hafði á Stapavegi. Hann var slappur en virtist ekki vera slasaður. Veður hann hafður á safninu í nokkra daga og fær eitthvað gott í gogginn og vonandi dugar það til að koma hionum á ról á ný.

Pysjurnar orðnar 34

08.09.2014

Þá eru komnar alls 34 pysjur í Pysjueftirlit Sæheima. Þá eru pysjurnar í ár orðnar fleiri en í fyrra en þá voru þær aðeins 30 talsins. 

Það voru þær Sigurbjörg og Birta sem komu með fyrstu pysju dagsins og fengu við það góða hjálp hjá dætrum sínum. 

Pysjurnar hafa flestar verið í mjög góðu standi og alveg tilbúnar til að halda út á hafið með hinum lundunum.

Þúfutittlingi bjargað

05.09.2014

Tvær stelpur komu á safnið með þúfutittling sem flogið hafði á rúðu og var vankaður. Ákveðið var að hafa hann til athugunar í nokkra klukkutíma og sjá hvort  hann myndi ekki jafna sig. Hann gerði það svo um munaði og náði að fljúga upp úr kassanum sínum. Hann flögraði um skrifstofuna með starfsmenn safsnins á eftir sér. Að lokum náðist að handsama fuglinn og var honum sleppt næsta garði. Hann flaug hinn hressasti á vit frelsisins. 

Talar við lunda

29.08.2014

Þessi drengur heitir Gustav Baldur og býr nálægt Frankfurt í Þýskalandi. Hann er aðeins sjö ára gamall en hefur þó komið átta sinnum til Vestmannaeyja með forleldrum sínum. Fjölskyldan hefur búið hjá Ruth Zholen meðan á dvölinni stendur og hefur hún kennt Gustav að tala lundamál. Í öll skiptin hafa þau komið í heimsókn á Fiskasafnið og hefur hann spjallað við Tóta. Auðvitað fannst Tóta þetta mjög spennandi og ekki skemmdi fyrir að strákurinn var í einstaklega flottri peysu sem prjónuð var fyrir hann eftir síðustu heimsókn til Eyja.

 

 

Þrjú ár frá komu Tóta

29.08.2014

Í dag eru þrjú ár frá því að komið var með Tóta á safnið. Þá var hann aðeins pínulítill dúnhnoðri og var aðeins 95 grömm að þyngd. 

Um þetta leyti eru lundapysjurnar venjulega að yfirgefa holurnar og eru tilbúnar til að bjarga sér á eigin spýtur. Þær eru þá um 250 til 300 grömm.

Það var Ágústa Georgsdóttir sem kom með hann til okkar og hér er hún með Tóta ásamt vinkonum þeirra beggja þeim Jóhönnu og Elísu.

Nýstárleg veiðiaðferð

29.08.2014

Við á Sæheimum - Fiskasafni erum svo heppin að á hverju sumri eru hér nokkrir hjálparkokkar sem aðstoða okkur við ýmis störf. Einn af þeim er hann Tobbi, sem er mikill veiðimaður. Þegar lagðar voru gildrur við Ræningjatanga fyrr í vikunni kom hann auga á ígulker ofan í sjónum og teygði sig eftir því. Ekki voru handleggirnir alveg nægilega langir og því brá hann á það ráð að fara úr skónum og náði að veiða ígulkerið í annan skóinn sinn. Hér á myndinni sést hann með nýja veiðarfærið og aflann.

Feiminn kambhríslungur

28.08.2014

Kambhríslungurinn sem komið var með á safnið í síðustu viku virðist vera alveg sérstaklega feiminn og hefur ekki mikið verið að sýna sig. Hann gerði þó undantekningu í dag og stillti sér upp fyrir ljósmyndara. Vonandi gerir hann meira af þessu því þetta er virkilega flottur og sérstakur fiskur. Eiginlega engum líkur. Hann hefur mest haldið sig ofan í eldfjallinu og er því líklega eini kambhríslungurinn sem býr í eldfjalli. 

Komin önnur pysja

28.08.2014

Nú er komin önnur lundapysja í pysjueftirlitið 2014. Fannst hún við golfskálann og var spipuð að stærð og pysjan sem fannst í gær, eða 286 grömm og vænglengdin 145 mm. Vonandi verða pysjurnar sem eiga eftir að koma svona flottar. 

Heimsókn frá New York Aquarium

15.08.2014

Þessar hressu konur komu í heimsókn á Fiskasafnið nú á dögunum. Þær eru frá Fiskasafninu í New York og fannst mjög gaman að skoða safnið en þó sérstaklega að hitta Tóta, sem skrúfaði frá sjarmanum og heillaði þær alveg upp úr skónum.