News

Þjóðhátíð

30.07.2015

Yfir þjóðhátíðina verður opnunartími Sæheima-Fiskasafns styttri en jafnan gerist. Föstudag til mánudags verður safnið opið kl. 13-15.

Tóti lundi er kominn í mikið þjóðhátíðarskap og stefnir að því að kíkja í tjöldin um helgina, sérstaklega er hann spenntur að sjá hverjir hafa tjaldað í Lundaholum.

Heimsókn frá Kaliforníu

02.07.2015

Þessi fjölskylda frá Kaliforníu heimsótti Sæheima í dag. Dóttirin Sarah hafði lesið um pysjutímann í Vestmannaeyjum fyrir fjórum árum síðan. Henni fannst þetta mjög spennandi og ákvað fjölskyldan að heimsækja Vestmannaeyjar við tækifæri og taka þátt í að bjarga lundapysjum. Krakkarnir eru bæði í skóla og áttu þau því ekki kost á að koma meðan pysjutíminn stendur yfir. Þess í stað komu þau núna og fóru með hjálparkokkum Sæheima, þeim Elísu, Snorra og Tobba, að leita að rituungum, en oft má finna litla unga undir Skiphellum sem dottið hafa úr hreiðrinu. Að sjálfsögðu fengu þau sýningu í sprangi í leiðinni. 

Rituunginn Dindill

29.06.2015

Nú er kominn annar rituungi í Sæheima. Strákurinn sem kom með hann á safnið heitir Ísak og er frá Reykjavík. Hann var í Vestmannaeyjum í fyrra og fann þá einnig rituunga sem hann kom með í Sæheima. Þessi ungi fékk nafnið Dindill. Hann var frekar slappur en er búinn að fá að éta og er nú aðeins hressari.

Gjöf frá Drangavík VE

29.06.2015

Nú í morgun kom áhöfnin á Drangavík VE færandi hendi. Færðu þeir safninu fjölda dýra sem þeir söfnuðu í síðasta halinu. Þar á meðal var gaddakrabbi, kolkrabbi, humar, öðuskel, hörpuskel, sundkrabbi o.fl. Dýrin voru öll mjög spræk og eru nú að kanna aðstæður í nýjum heimkynnum. Það er frábært fyrir safnið að fá slíkar gjafir. 

Mikil orka

26.06.2015

Núna stendur Orkumótið í fótbolta yfir og flykkjast þá fjörugir fótboltastrákar í Sæheima. Allir vilja þeir að sjálfsögðu heilsa upp á Tóta lunda. Á myndinni eru strákar úr FH að klappa honum. Tóti lundi er nefndur eftir Þórarni Inga, knattspyrnumanninum knáa, sem lék með ÍBV en er nú genginn í raðir FH. Söguskýring Sæheima á því er að Þórarinn Ingi hafi farið inn í vitlausa lundaholu og hafi komið upp í Hafnarfirði, en Tóti okkar rati alltaf í réttu holuna. 

Lundi í vandræðum

24.06.2015

Nú á dögunum var komið með fullorðinn lunda í Sæheima. Unglingar sem voru á bryggjurúnti komu auga á lundann þar sem hann hljóp um og blakaði vængjunum en náði ekki að hefja sig til flugs. Þau náðu að hlaupa hann uppi. Hann virtist vera hinn hressasti en þverneitaði þó að éta nokkuð. Það er ávallt dýrindis loðna á matseðli Sæheima, en hann fúlsaði við henni og lét vanþóknun sína í ljós með því að bíta starfsmennina hressilega þegar þeir reyndu að koma í hann loðnu. Næsta dag þufti að vitja um fiðrildagildru sem staðsett er í Stórhöfða og var lundinn tekinn með og honum gefið frelsi. Þá flæktist það ekki fyrir honum að fljúga og tók hann stefnuna vestur fyrir Stórhöfða. Kristján Egillson tók myndina við þetta tækifæri.

Fyrsti rituungi sumarsins

23.06.2015

Á hverju sumri finnst fjöldi rituunga undir ritubyggðinni í Skiphellum. Oft eru það eldri systkyni sem henda þeim fram af. Það eina sem getur bjargað lífi þeirra eru bjargvættir eins og stelpurnar tvær sem björguðu litlum rituunga í gærkvöldi. Lokað var í Sæheimum og því brugðu þær á það ráð að fara með ungann heim til safnstjórans. Þar var tekið vel á móti honum og var kötturinn á heimilinu alveg sérstaklega áhugasamur. Unginn er nú kominn á safnið og situr tístandi í skókassa og étur ágætlega.

Karen, Karen

22.06.2015

Við greindum frá því í september síðast liðnum að komið hafði verið með pysju í Sæheima sem var slösuð. Hægri fótur hennar var alveg máttlaus og gat hún hvorki gengið né synt. Dýralæknir frá Pennsylvaníu, Karen að nafni, skoðaði pysjuna og og staðfesti að hún væri hvorki fótbrotin né úr lið. Hún taldi að hægt væri að hjálpa henni með réttum æfingum. Pysjan sem fékk auðvitað nafnið Karen, er því búin að vera í sjúkraþjálfun hjá okkur í vetur.  

Karen kom á safnið um helgina og heilsaði upp á nöfnu sína. Var hún mjög ánægð með árangurinn, því þó pysjan sé enn hölt þá getur hún núna gengið um. Mesta framförin er þó að nú er hún ekki lengur hrædd við mannfólkið, heldur lætur sér vel líka að haldið sé á henni og finnst ekki verra að fá strokur og knús.

Dagur hinna villtu blóma

14.06.2015

Í dag, þann 14. júní, er "Dagur hinna villtu blóma". Þetta er samnorrænn dagur sem Flóruvinir á Norðurlöndunum halda hátíðlegan. 

Í Sæheimum er einnig haldið upp á daginn. Þar eru í andyri safnsins ljósmyndir af ýmsum blómplöntum á Heimaey. Formlega opnum við nú einnig sérstakan Flóruvef  með gróðurkorti af Heimaey þar sem hægt er að smella á nokkur svæði eyjarinnar og skoða hvaða blómplöntur eru mest áberandi. Á stikunni hér fyrir ofan er smellt á "Fróðleikur"  og síðan á "Gróðurkort" til að skoða Flóruvefinn. 

Vinnu við vefinn er ekki lokið til fullnustu og þætti okkur vænt um ef blómaáhugafólk á eyjunni tæki myndir af sjaldséðum plöntum sem á vegi þeirra verða og senda okkur ásamt staðsetningu. Þannig getum við í sameiningu gert vefinn þéttari.

Hér fyrir ofan er mynd af fallegri hrafnaklukku í hraunkantinum, en þær eru einmitt í blóma núna.

Pæjurnar mættar

11.06.2015

Nú er pæjumótið byrjað og koma þá mörg liðanna í heimsókn í Sæheima. Það voru blikastelpur sem voru þær fyrstu til að kíkja við og tók Tóti vel á móti þeim. Það eru alltaf fjörugir og skemmtilegir dagar á safninu þegar fótboltamótin fara fram.

Sjómannadagurinn

05.06.2015

Eins og ávallt um sjómannadagshelgina er opið hús í Sæheimum - Fiskasafni og frítt inn. Safnið er opið bæði laugardag og sunnudag kl 10-17.   

Kæru sjómenn, við óskum ykkur innilega til hamingju með daginn og bestu þakkir fyrir allar gjafirnar í gegn um tíðina og von um áframhaldandi gott samstarf.

 

Köttur kíkir við

14.05.2015

Þessi myndarlegi köttur kom í heimsókn til okkar á safnið í dag. Hann rölti um og skoðaði safnmuni en hann var þó mun hrifnari af gestum safnsins sem klöppuðu honum og knúsuðu. Tóti lundi var ekki mjög hrifinn af þessari heimsókn og fór svo að lokum að hringt var í eigendur kattarins og komu þeir skömmu síðar og fóru með hann til síns heima.

Tóti kvikmyndastjarna

12.05.2015

Nú í sumar mun verða sýnt auglýsingamyndband fyrir Vestmannaeyjar í flugvélum Icelandair og er það Saga Film sem vinnur það. Tökulið frá þeim kom á dögunum til okkar í Sæheimum og tók upp myndefni frá safninu. Tóti lék að sjálfsögðu aðalhlutverkið og gaf þeim Brad Pitt og George Clooney ekkert eftir hvorki í leikhæfileikum né sjarma. Á myndinni hér að ofan er hann ásamt mótleikkonu sinni henni Þóru Karitas.

Sumaropnun

01.05.2015

Í dag var fyrsti dagurinn í sumaropnun Sæheima-Fiskasafns. Er nú búið að lengja sumaropnum safnsins, og er það nú opið frá 1. maí og til loka september. Bætast því tvær vikur við opnunartímann við upphaf og lok hans. Einnig opnar safnið nú kl. 10 á morgnana í stað kl. 11 áður. 

Þessar hressu stelpur notuðu tækifærið og kíktu við á safninu og heilsuðu auðvitað upp á hann Tóta.

Sumardagurinn fyrsti

23.04.2015

Af tilefni af sumarkomunni bauð Vestmannaeyjabær eyjamönnum að skoða söfnin í bænum. Um 170 manns nýttu sér þetta góða boð og komu í heimsókn til okkar í Sæheimum. Tóti virtist vera mjög ánægður að fá svo marga gesti. Óskar hann og aðrir starfsmenn safnsins ykkur öllum gleðilegs sumars.

Langvían komin aftur

08.04.2015

Langvían sem við slepptum á Páskadag er komin á safnið til okkar aftur. Starfsmenn Rib-Safari rákust á hana við smábátahöfnina og kvartaði hún þá sáran og nánast bað um að verða bjargað. Á myndinni má sjá þar sem hún rekur raunir sínar fyrir Kristjáni Egilssyni, sem kom með hana á safnið. Hún tók vel til matar síns og virtist vera alsæl yfir því að vera komin til okkar aftur. Eigum við því frekar að venjast að þessu sé öfugt farið.

Langvíu sleppt

05.04.2015

Fyrir nokkrum vikum var komið með langvíu á safnið sem hafði fundist í fjörunni í Höfðavík. Þegar hún fannst var hún mjög veikburða og var svartbakur farinn að hugsa sér gott til glóðarinnar að bragða á gómsætri langvíu. Starfsmaður Náttúrustofu Suðurlands gerði þessar áætlanir svartbaksins að engu og bjargaði langvíunni úr klóm hans.

Þegar á safnið var komið var reynt að koma æti ofan í langvíuna og hressist hún mjög eftir að hafa étið nokkrar loðnur. Hefur hún verið í góðu yfirlæti á safninu og sporðrenndi mörgum loðnum á dag. Var hún orðin nægilega hress til að fá frelsi á ný og halda gráðugum svartbökum í hæfilegri fjarlægð.

Heimsókn

11.03.2015

Þessi fjölskylda, sem býr í Miami í Flórida, kom í heimsókn á safnið í dag. Það væri nú ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þau komu til Vestmannaeyja eingöngu til að heimsækja lundann Tóta. Á ferð þeirra um Suðurland varð einhver á vegi þeirra sem sagði þeim frá því að í Sæheimum væri lifandi lundi. Þau urðu mjög spennt og drifu sig í Þorlákshöfn þar sem þau tóku fyrri ferð Herjólfs  til Vestmannaeyja og fara síðan til baka í fyrramálið. 

Gaddakrabbi frá Gullberginu

04.02.2015

Áhöfnin á Gullbergi VE færði Sæheimum flottan gaddakrabba í dag. Það var Emma Ey Sigfúsdóttir sem kom með krabbann til okkar. Það má segja að krabbinn hafi átt viðburðaríkan dag því hann kom við á leikskólanum Kirkjugerði og í grunnskólanum á leið sinni á safnið. Nú er hann að eignast nýja vini því að fyrir eru tveir gaddakrabbar á safninu.

Lundi í vetrarbúningi

02.02.2015

Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE kom með þennan lunda á safnið. Hafði hann komið um borð hjá þeim og greinilega eitthvað slappur. Hann er eitthvað laskaður á væng en virðist þó ekki vera brotinn. Lundinn er frekar léttur og hefur mögulega átt erfitt með að veiða sér til matar í einhvern tíma. Hann virðist að öðru leyti vera mjög hress og tekur vel til matar síns.

Það er ekki oft sem við sjáum lunda í vetrarbúningi enda halda þeir sig á sjónum allan veturinn. Þegar þeir koma að landi á vorin eru þeir komnir í varpbúning sinn, sem er sá búningur sem við þekkjum.