News

Önnur lundapysja

12.09.2015

Í gærkvöldi fundu þau Elvar, Kristbjörg og Gunnar lundapysju við veslun Kjarval í Goðahrauni. Þetta er önnur pysjan þetta árið sem komið er með í pysjueftirlit Sæheima. Hún var aðeins 219 grömm að þyngd og vænglengdin 144 mm. Þrátt fyrir að vera létt var hún alveg ódúnuð og mjög spræk. 

Pysjueftirlitið er að gefa okkur mjög góðar og mikilvægar upplýsingar um fjölda og ástand lundapysja og því hvetjum við fólk til að koma með þær til okkar í vigtun og mælingu áður en þeim er sleppt. Safnið er opið út september kl. 10-17 alla daga.

Sjósvölu sleppt

11.09.2015

Þessa dagana eru það ekki einungis pysjur sem við eigum von á að finna á götum bæjarins. Fjölda fýlsunga hefur þegar verið bjargað og nú eru sjósvölur einnig byrjaðar að yfirgefa hreiður sín. Seinna í mánuðinum má svo eiga von á skrofuungum. Sjósvalan á myndinni er sú fyrsta sem komið hefur í Sæheima þetta haustið. Hún fannst við FES og var hugsanlega að koma úr Elliðaey eða Bjarnarey, en þar eru stórar sjósvölubyggðir. Hún reyndist 47 grömm að þyngd og er það svipað og sjósvölurnar hafa verið, sem við höfum vigtað síðustu haust. Var henni gefið frelsi eftir stutt stopp á safninu og flaug hún langt á haf út. 

Angie fær heimsókn

10.09.2015

Lundadaman Angie Andradóttir hefur verið í pössun hjá okkur í Sæheimum í nokkrar vikur. Andri kom í heimsókn í dag og urðu þá miklir fagnaðarfundir hjá þeim. Angie lyftist öll upp um leið og hún heyrði í Andra og sýndi ást sína meðal annars með því að bíta í eyra hans.

Gullglyrna

10.09.2015

Komið var með gullglyrnu í Sæheima sem fundist hafði við Sorpu. Gullglyrnur eru flækingar hér á landi og berast oft frá Evrópu með sterkum vindum og hafa fundist víða um land. Þær eru af ættbálki netvængja, en birkiglyrna er eina tegund þessa ættbálks sem lifir hérlendis. 

Gullglyrna er mjög fallegt skordýr. Bolurinn er fagurgrænn með gulri rönd eftir honum endilöngum. Vængirnir eru gagnsæir með áberandi æðaneti. Augun eru hvelfd, gulgræn og gljáandi og dregur tegundin nafn sitt af þeim. Fullorðnar gullglyrnur nærast á frjókornum og blómasafa en lirfurnar éta blaðlýs.

Sjá nánar á:  http://www.ni.is/poddur/flaekingar/poddur/nr/973 

Fyrsta lundapysjan

08.09.2015

Fyrsta lundapysja sumarsins var að koma í hús. Það voru þau Erna og Sigurður sem fundu hana inni í Herjólfsdal.  Pysjan var mjög smá en þó ekki dúnuð. Hún var 167 grömm að þyngd og vænglengdin 120 mm. Var henni boðin loðna og tók hún vel til matar síns og virkar spræk þó smávaxin sé.

Nú er um að gera að taka bryggjurúnt á kvöldin með pappakasana klára í skottinu og hafa augun hjá sér.

Urrari

02.09.2015

Georg á Bylgju VE færði safninu þennan urrara sem veiddist á um 40 faðma dýpi suður af Eyjum. Stöku sinnum hafa safninu verið færðir urrarar og hefur gengið mjög illa að halda þeim á lífi, því þeir virðast mjög viðkvæmir fyrir því að vera dregnir upp af einhverju dýpi. Sundmaginn belgist þá upp og þeir ná ekki að jafna sig á þrýstingsmuninum milli botnsins og yfirborðsins. Þessi virtist þó vera fljótur að jafna sig og vonandi lifir hann áfram því að urrarar eru mjög sérkennilegir og fallegir fiskar og gaman að hafa einn slíkan á safninu. 

Urrarar eru botnfiskar sem lifa á grunnsævi í hlýjum og tempruðum höfum. Um 100 tegundir þeirra eru þekktar í heimshöfunum en aðeins ein tegund lifir við Ísland og er hann í hlýja sjónum undan suðurströndinni. Urrarar hafa sundmaga og geta gefið frá sér hljóð með hjálp hans og er nafn þeirra dregið af þeim eiginleika. Annað sérkenni þeirra er að þeir geta staulast um botninn á eyruggunum. 

Heimild: Íslenskir fikar eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson

 

Síðustu ritunum sleppt

29.08.2015

Í sumar hefur verið komin með mikinn fjölda rituunga á safnið og hefur því ritusveit Sæheima haft í nógu að snúast. Ungarnir hafa fallið úr hreiðrum sínum við Skiphella og hafa börnin í ritusveitinni farið nánast daglega að leita að ungum undir bjarginu. Fá þeir vel að éta og þegar þeir eru fullvaxnir er þeim gefið frelsi. Börnin í ritusveitinn eru öll byrjuð í skólanum og því voru það bræðurnir Örn og Óðinn sem sáu um að sleppa síðustu rituungum sumarsins. 

Pysjutíminn nálgast

25.08.2015

Nú á næstu dögum er von á fyrstu lundapysjunum í bæinn og er því um að gera að hafa augun hjá sér þegar kvölda tekur. Eins og undanfarin ár verður Pysjueftirlitið starfrækt hjá Sæheimum og hvetjum við alla til að koma þangað með pysjurnar sem finnast í vigtun og vængmælingu. Pysjueftirlitið er að gefa okkur mikilvægar upplýsingar um fjölda og ástand lundapysja hvert ár.

Svo er um að gera að fara strax og sleppa pysjunum á góðum stað. Það er mikilvægt að sleppa pysjunum eins fljótt og mögulegt er eftir að þær finnast. Hver dagur í haldi dregur úr lífslíkum þeirra og er þetta sérstaklega mikilvægt núna þegar fáar pysjur eru að komast á legg. Einnig skal varst að meðhöndla þær mikið því að við það missa þær fituna úr fiðrinu sem er þeim svo mikilvæg og gerir þeim kleyft að halda vatni frá líkamanum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrusofu Suðurlands eru ungar í um 15% lundaholanna á rannsóknasvæði þeirra og eigum við því ekki von á mörgum pysjum þetta árið.

Kóngasvarmi

25.08.2015

Þetta stóra og flotta fiðrildi kom um borð í Sigurð VE þegar hann var að veiðum fyrir austan land. Um er að ræða fiðrildi af tegundinni kóngasvarmi, sem er árlegur gestur á Íslandi. Kóngasvarmar eru miklir fluggarpar og geta náð 55 km hraða á klukkustund. Þeir leggjast oft í langflug frá náttúrulegum heimkynnum sínum í heittempruðum svæðum og hitabeltislöndum . Hingað til lands koma þeir sérstaklega síðsumars. Kóngasvarmi er eitt stærsta skordýr sem berst til landsins og getur vænghaf hans verið allt að 12 cm. Hann er helst á ferli á myrkri en laðast að ljósi og flýgur stundum inn um opna glugga. Bregður þá mörgum í brún en ekert er að óttast því kóngasvarmi er alveg meinlaus þó hann sé stórvaxinn. 

Tóti 4 ára

20.08.2015

Í dag höldum við í Sæheimum upp á fjögurra ára afmæli Tóta lunda. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða dag hann klaktist úr egginu en 20. ágúst er mjög nálægt lagi. Tóti var um það bil viku gamall þegar komið var með hann á safnið til okkar þann 29. ágúst 2011.

Stelpurnar í 5. flokki Þróttar í knattspyrnu komu í heimsókn á safnið og sungu afmælissönginn fyrir Tóta.

Búningaskipti

19.08.2015

Margir spyrja sig þessa dagana hvort að sumarið sé búið. Hann Tóti lundi er alveg ákveðinn í því að svo sé. Hann er langt kominn með að skipta yfir í vetrarbúninginn sinn og er nokkuð langt á undan frændum sínum sem lifa villtir. 

Eins og sjá má á myndinni er hann talsvert öðruvísi útlits en lundi í sumarbúningi. Hvíta spöngin við nefrótina er horfin og guli bletturinn í munnvikinu er vart greinilegur lengur. Einnig hafa plötur fallið af goggnum ásamt plötunum sem mynda þríhyrninginn umhverfis augun. Tóti er er einnig að dökkna í vöngum. Alla jafna sjáum við ekki þessar breytingar eiga sér stað hjá lundum í náttúrinni því að þeir hafa yfirgefið varpstöðvarnar þegar þær verða.

Þjóðhátíð

30.07.2015

Yfir þjóðhátíðina verður opnunartími Sæheima-Fiskasafns styttri en jafnan gerist. Föstudag til mánudags verður safnið opið kl. 13-15.

Tóti lundi er kominn í mikið þjóðhátíðarskap og stefnir að því að kíkja í tjöldin um helgina, sérstaklega er hann spenntur að sjá hverjir hafa tjaldað í Lundaholum.

Heimsókn frá Kaliforníu

02.07.2015

Þessi fjölskylda frá Kaliforníu heimsótti Sæheima í dag. Dóttirin Sarah hafði lesið um pysjutímann í Vestmannaeyjum fyrir fjórum árum síðan. Henni fannst þetta mjög spennandi og ákvað fjölskyldan að heimsækja Vestmannaeyjar við tækifæri og taka þátt í að bjarga lundapysjum. Krakkarnir eru bæði í skóla og áttu þau því ekki kost á að koma meðan pysjutíminn stendur yfir. Þess í stað komu þau núna og fóru með hjálparkokkum Sæheima, þeim Elísu, Snorra og Tobba, að leita að rituungum, en oft má finna litla unga undir Skiphellum sem dottið hafa úr hreiðrinu. Að sjálfsögðu fengu þau sýningu í sprangi í leiðinni. 

Rituunginn Dindill

29.06.2015

Nú er kominn annar rituungi í Sæheima. Strákurinn sem kom með hann á safnið heitir Ísak og er frá Reykjavík. Hann var í Vestmannaeyjum í fyrra og fann þá einnig rituunga sem hann kom með í Sæheima. Þessi ungi fékk nafnið Dindill. Hann var frekar slappur en er búinn að fá að éta og er nú aðeins hressari.

Gjöf frá Drangavík VE

29.06.2015

Nú í morgun kom áhöfnin á Drangavík VE færandi hendi. Færðu þeir safninu fjölda dýra sem þeir söfnuðu í síðasta halinu. Þar á meðal var gaddakrabbi, kolkrabbi, humar, öðuskel, hörpuskel, sundkrabbi o.fl. Dýrin voru öll mjög spræk og eru nú að kanna aðstæður í nýjum heimkynnum. Það er frábært fyrir safnið að fá slíkar gjafir. 

Mikil orka

26.06.2015

Núna stendur Orkumótið í fótbolta yfir og flykkjast þá fjörugir fótboltastrákar í Sæheima. Allir vilja þeir að sjálfsögðu heilsa upp á Tóta lunda. Á myndinni eru strákar úr FH að klappa honum. Tóti lundi er nefndur eftir Þórarni Inga, knattspyrnumanninum knáa, sem lék með ÍBV en er nú genginn í raðir FH. Söguskýring Sæheima á því er að Þórarinn Ingi hafi farið inn í vitlausa lundaholu og hafi komið upp í Hafnarfirði, en Tóti okkar rati alltaf í réttu holuna. 

Lundi í vandræðum

24.06.2015

Nú á dögunum var komið með fullorðinn lunda í Sæheima. Unglingar sem voru á bryggjurúnti komu auga á lundann þar sem hann hljóp um og blakaði vængjunum en náði ekki að hefja sig til flugs. Þau náðu að hlaupa hann uppi. Hann virtist vera hinn hressasti en þverneitaði þó að éta nokkuð. Það er ávallt dýrindis loðna á matseðli Sæheima, en hann fúlsaði við henni og lét vanþóknun sína í ljós með því að bíta starfsmennina hressilega þegar þeir reyndu að koma í hann loðnu. Næsta dag þufti að vitja um fiðrildagildru sem staðsett er í Stórhöfða og var lundinn tekinn með og honum gefið frelsi. Þá flæktist það ekki fyrir honum að fljúga og tók hann stefnuna vestur fyrir Stórhöfða. Kristján Egillson tók myndina við þetta tækifæri.

Fyrsti rituungi sumarsins

23.06.2015

Á hverju sumri finnst fjöldi rituunga undir ritubyggðinni í Skiphellum. Oft eru það eldri systkyni sem henda þeim fram af. Það eina sem getur bjargað lífi þeirra eru bjargvættir eins og stelpurnar tvær sem björguðu litlum rituunga í gærkvöldi. Lokað var í Sæheimum og því brugðu þær á það ráð að fara með ungann heim til safnstjórans. Þar var tekið vel á móti honum og var kötturinn á heimilinu alveg sérstaklega áhugasamur. Unginn er nú kominn á safnið og situr tístandi í skókassa og étur ágætlega.

Karen, Karen

22.06.2015

Við greindum frá því í september síðast liðnum að komið hafði verið með pysju í Sæheima sem var slösuð. Hægri fótur hennar var alveg máttlaus og gat hún hvorki gengið né synt. Dýralæknir frá Pennsylvaníu, Karen að nafni, skoðaði pysjuna og og staðfesti að hún væri hvorki fótbrotin né úr lið. Hún taldi að hægt væri að hjálpa henni með réttum æfingum. Pysjan sem fékk auðvitað nafnið Karen, er því búin að vera í sjúkraþjálfun hjá okkur í vetur.  

Karen kom á safnið um helgina og heilsaði upp á nöfnu sína. Var hún mjög ánægð með árangurinn, því þó pysjan sé enn hölt þá getur hún núna gengið um. Mesta framförin er þó að nú er hún ekki lengur hrædd við mannfólkið, heldur lætur sér vel líka að haldið sé á henni og finnst ekki verra að fá strokur og knús.

Dagur hinna villtu blóma

14.06.2015

Í dag, þann 14. júní, er "Dagur hinna villtu blóma". Þetta er samnorrænn dagur sem Flóruvinir á Norðurlöndunum halda hátíðlegan. 

Í Sæheimum er einnig haldið upp á daginn. Þar eru í andyri safnsins ljósmyndir af ýmsum blómplöntum á Heimaey. Formlega opnum við nú einnig sérstakan Flóruvef  með gróðurkorti af Heimaey þar sem hægt er að smella á nokkur svæði eyjarinnar og skoða hvaða blómplöntur eru mest áberandi. Á stikunni hér fyrir ofan er smellt á "Fróðleikur"  og síðan á "Gróðurkort" til að skoða Flóruvefinn. 

Vinnu við vefinn er ekki lokið til fullnustu og þætti okkur vænt um ef blómaáhugafólk á eyjunni tæki myndir af sjaldséðum plöntum sem á vegi þeirra verða og senda okkur ásamt staðsetningu. Þannig getum við í sameiningu gert vefinn þéttari.

Hér fyrir ofan er mynd af fallegri hrafnaklukku í hraunkantinum, en þær eru einmitt í blóma núna.