Fréttir

19.11.2015

511

Komið með kjána

Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE fékk óvenjulegan fisk er þeir voru að veiðum suðvestur af Surtinum. Fiskurinn líktist nokkuð skötusel en var mun minni og rauður að lit. Reyndist þetta vera fiskur sem kallaður er kjáni og er af kjánaætt. Fiskar þessarar ættar eru botnfiskar og lifa sumir allt niður á 2000 metra dýpi. Þeir finnast í öllu höfum nema íshöfunum. Kjáninn er eina tegund þessarar ættar sem hefur veiðst á Íslandsmiðum. Kjánar eru í raun skyldir skötuselum en báðar tegundirnar eru af ættbálki sem kallast kjaftagelgjur.

Kjánar hafa mikla útbreiðslu og finnast beggja vegna Atlantshafsins. Einnig finnast þeir í Miðjarðarhafinu og nokkrir kjánar hafa veiðst við Íslandsstrendur. Þeir fiskar sem hafa veiðst hér við land hafa verið á 220 til 1050 metra dýpi en kjáninn sem þeir á Þórunni veiddu var á um 600 metra dýpi.

Kjáninn sem komið var með á safnið var 19,5 cm en þeir geta orðið um 30 cm langir. Kjánar hafa stóran og vel tenntan kjaft og mjög stór augu sem eru staðsett ofan á höfðinu. Milli augnanna hafa þeir smásepa með ljósfæri á endanum. Þeir eru því vel búnir til að veiða lítil botndýr sem þeir laða til sín með ljósinu á höfðinu.

Kjáni þessi mun verða stoppaður upp og hafður til sýnis hér á safninu.

Heimild: Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. Útgefin af Máli og Menningu árið 2013


Til baka