Fréttir

02.05.2011

Nornakrabbi hefur skelskipti

 Í  Sæheimum – Fiskasafni eru núna til sýnis tvö eintök af krabba, sem er afar sjaldgæfur við Íslandsstrendur. Um er að ræða nornakrabba (Paromola cuvieri ) sem einnig hefur verið kallaður langfótungur. Fyrsti krabbi þessarar tegundar kom á Fiskasafnið árið 1967 og  hin síðari ár hafa borist einstaka eintök á safnið. En árið 2010 var komið með fjóra nornakrabba á safnið. Hugsanlega er tegundin að verða algengari í sjónum við Ísland vegna hlýnun sjávarins.

Nornakrabbar eins og önnur krabbadýr stækka með því að hafa skelskipti nokkrum sinnum á ævinni. Þá losa þeir sig við gömlu skelina  og belgja sig út þangað til ný skel tekur að myndast. Meðan á þessu stendur er líkami þeirra mjúkur og dýrin mjög berskjölduð. Margir umhverfisþættir hafa áhrif á það hversu oft krabbadýr hafa skelskipti og má þar nefna fæðuframboð og hitastig sjávarins.

Núna um páskana hafði annar nornakrabbinn á safninu skelskipti og við fyrstu sýn virtist sem krabbarnir væru orðnir þrír en enginn kannaðist við að hafa tekið við nýjum nornakrabba.  Við nánari athugun kom í ljós að einn af hinum meintu kröbbum var tóm skel.

Nornakrabbar eru nokkuð sérkennilegir útlits. Eins og nafnið langfótungur gefur til kynna eru fætur þeirra nokkuð langir og virðast enn lengri vegna þess hve grannir þeir eru.  Á skildinum og fótunum eru smáir gaddar og á milli augnanna eru þrír stærri gaddar. Áberandi einkenni langfótungs er að aftasta fótaparið er veigalítið og klærnar á enda þeirra krepptar inn á við. Þetta fótapar situr einnig ofar og nær skildinum en aðrir fætur krabbans.  Það var fyrir nokkrum árum sem uppgötvaðist að krabbinn notar þessa fætur til að halda péturskipum, svömpum eða öðrum flötum hlutum eins og hlífiskildi yfir búknum. Þetta atferli sást fyrst á Fiska- og náttúrugripasafni Vestmannaeyja  og var það Kristján Egilsson safnvörður sem tók eftir þessu sérkennilega atferli kabbanna.
 
    
Til baka