Fréttir

22.10.2010

24

Lundapysja í pössun

Síðustu daga hefur lundapysja verið í pössun hjá okkur á Fiskasafninu. Finnandi hennar ákvað í haust að halda henni þar sem að hún kom frekar seint og var lítil og létt. Þannig að lífslíkur hennar hefðu ekki verið miklar ef henni hefði verið sleppt í sjóinn. Pysjan hefur þyngst mikið og er spræk enda fengið nóg að éta og vel verið hugsað um hana.


 

Fleiri fuglar hafa verið settir í pössun til okkar fyrr á árinu.

Lundapysjan Angie sem er frá síðasta ári var hjá okkur í tvær vikur í sumar þegar eigandi hennar brá sér til Danmerkur. Hún undi sér vel á safninu og vakti mikla lukku hjá gestum safnsins enda mjög gæf og skemmtileg. En hún hélt sig nánast alfarið í búri sínu meðan pollamótið stóð yfir. Líklega hefur henni þótt nóg um lætin í drengjunum.

Smyrill var hjá okkur í nokkra daga fyrr í haust. Hann hefur líklega lent á bíl og laskast á væng en finnandi hanns tók hann í fóstur. Smyrillinn vakti mikla athygli hjá gestum safnsins enda glæsilegur fugl og óvenjulegt að geta skoðað ránfugla í návígi.

Síðast en ekki síst ber að nefna hann Rassmus, sem er páfagaukur og mikill spjallari. Hann hefur nokkrum sinnum verið í pössun hér og hefur kjaftað við okkur og gestina. Það hefur verið mjög gaman að hafa hann og margar páfagaukasögurnar verið sagðar.

Til baka