Fréttir

Náttúruvísindadagar

24.09.2015

Nú standa yfir Náttúruvísindadagar hjá krökkunum í 10. bekk GRV. Fengu þau fyrirlestra um marhnút, lunda og lúpínu og lögðu síðan leið sína í Sæheima og unnu verkefni um pysjueftirlitið. Tóku þau viðtöl við starfsfólkið og spurðu þau spjörunum úr og vildu fá upplýsingar um tölur síðustu ára í pysjueftirlitinu. Margir af krökkunum komu með pysjur í vigtun og mælingu í leiðinni.

Pysja á Sóla

23.09.2015

Þessar hressu fjögurra ára stelpur fundu pysju á leikskólanum Sóla. Að sjálfsögðu marsereðu þær með hana í pysjueftirlit Sæheima. Nú er pysjan komin út í sjó með hinum pysjunum. 

Komnar yfir 400 pysjur

23.09.2015

Nú eru komnar samtals 429 pysjur í pysjueftirlit Sæheima. Þó að þetta muni seint teljast gott pysjuár þá gleðjumst við yfir því að pysjurnar eru miklu fleiri en í fyrra, en þá voru þær 99 talsins og aðeins 30 árið þar áður. Í dag var góður dagur í pysjueftirlitinu en alls var komið með 146 pysjur. Þá var einnig komið með þyngstu pysjuna sem komið hefur verið með þetta árið en hún fannst á Eiðinu í gærkvöldi og var 318 grömm að þyngd. Við vonum að þessi þróun haldi áfram og viljum endilega fá bæði fleiri og stærri pysjur. Á myndinni má sjá pysju númer 400 ásamt finnandanum, honum Karli Jóhanni.

Lundi með æti

22.09.2015

Pysjur eru enn að berast í pysjueftirlit Sæheima og í dag var komið með 58 pysjur. Þær eru því orðnar samtals 284 þetta árið. Lundinn er enn að bera æti í pysjurnar og eigum við því von á fleiri pysjum næstu daga. Er þetta talsvert seinna en verið hefur undanfarin ár. Myndina tók Ruth Zolen í Stórhöfða um helgina og greinilegt að einhver heppin pysja var í þann mund að fá góða máltíð.

Komnar 165 pysjur

20.09.2015

Enn eru að berast pysjur í pysjueftirlit Sæheima og eru þær nú orðnar 165 talsins. Eru það nokkuð fleiri pysjur en komu allt tímabilið í fyrra, en þá fundust  99 pysjur. Þær eru ákaflega seint á ferðinni í ár og eru talsvert léttari en undanfarin ár.

Pysjurnar sem komið hefur verið með í pysjueftirlitið um helgina eru þó nokkuð þyngri en þær sem komu fyrstu dagana. Í lok dags þann 15. september var meðalþyngdin skoðuð og var þá aðeins 207,5 grömm en er núna búin að tosast upp í 224,7 grömm. Þetta er langt frá því að vera ákjósanleg meðalþyngd, en er að færast í rétta átt og vonandi heldur þyngdin áfram að aukast.

Opið verður í Sæheimum alla daga kl. 10-17 alveg út september og um að gera að koma með pysjurnar í vigtun og mælingu áður en þeim er sleppt á haf út.

Pysjueftirlitið í fullum gangi

16.09.2015

Nú eru komnar samtals 37 pysjur í Pysjueftrilit Sæheima. Það eru því komnar fleiri pysjur í pysjueftirlitið núna en komið var með allt pysjutímabilið árið 2013, en þá komu einungis 30 pysjur. Þegar komið er með pysjur til okkar þá eru þær bæði vigtaðar og vængmældar. Þegar þessar tölur eru skoðaðar saman þá gefur það ákveðna mynd af holdafari pysjanna.

Pysjurnar í ár eru nánast allar mjög léttar en samt sem áður ódúnaðar. Vænglengdin aftur á móti er eins og í meðal ári. Þetta segir okkur það að pysjurnar núna eru horaðar.  Pysjurnar sem enn eru í holum sínum eru vonandi að fá nóg að éta þannig að þær verði aðeins pattaralegri en þær sem þegar eru komnar.

Krakkarnir hafa verið mjög dugleg að koma með pysjur í mælingu og þökkum við kærlega fyrri það. Inni á facebook síðu Sæheima má sjá myndir af nokkrum þessara krakka með pysjurnar sem þau fundu.

Aðmírálsfiðrildi

15.09.2015

Með fyrstu haustlægðunum berst oft nokkur fjöldi skordýra til Íslands sem alla jafna sjást þar ekki. Eitt þessara skordýra er aðmírálsfiðrildið, sem hefur nánast verið árlegur gestur frá því að það fannst fyrst hérlendis árið 1901. Við í Sæheimum höfum frétt af nokkuð mörgum aðmírálsfiðrildum á Heimaey síðustu daga og starfsmenn Kubbs náðu að handsama eitt þeirra og færa safninu.

Aðmírálsfiðrildi hafa mjög mikla útbreiðslu. Þau finnast um nánast alla Evrópu en einnig í Litlu Asíu og Íran, Norður Afríku, mestalla Norður Ameríku og niður til Guatemala og Haití. hér á landi hafa þau helst fundist á láglendi sunnanlands. Þau eru miklir fluggarpar og hafa ríkt flökkueðli. Þau eru að berast hingað til lands allt sumarið en algengast er að þau komi hingað í september með sterkum sunnanvindum. Ekki er vitað til að þau hafi náð að fjölga sér hérlendis.

Nánar á:  http://www.ni.is/poddur/flaekingar/poddur/nr/1316

Skrofurnar mættar

12.09.2015

Í dag var komið með fyrstu skrofu haustsins í Sæheima. Reyndist hún vera 460 grömm að þyngd. Skrofur eru skyldar sjósvölum og stormsvölum en eru talsvert stærri en þessar frænkur þeirra.

Þessir fuglar eru  af ættbálki pípunasa, en einkenni þeirra er að nasaholurnar mynda pípur ofan á nefinu. Fýlar eru einnig í fjölskyldunni og eru þeir stæstir þessara fugla.

Þriðja lundapysjan

12.09.2015

Rétt í þessu var komið með þriðju pysjuna í pysjueftirlit Sæheima. Fannst hún við verslunina Eyjavík og var þar að skoða í búðarglugga. Pysjan var mun stærri en fyrri pysjur, eða 288 grömm og vænglengdin 146 mm. Hún var mjög vel gerð og spræk og barðist um á hæl og hnakka í myndatökunni. Líklega hefur hún bara viljað komast strax út á sjó.

Önnur lundapysja

12.09.2015

Í gærkvöldi fundu þau Elvar, Kristbjörg og Gunnar lundapysju við veslun Kjarval í Goðahrauni. Þetta er önnur pysjan þetta árið sem komið er með í pysjueftirlit Sæheima. Hún var aðeins 219 grömm að þyngd og vænglengdin 144 mm. Þrátt fyrir að vera létt var hún alveg ódúnuð og mjög spræk. 

Pysjueftirlitið er að gefa okkur mjög góðar og mikilvægar upplýsingar um fjölda og ástand lundapysja og því hvetjum við fólk til að koma með þær til okkar í vigtun og mælingu áður en þeim er sleppt. Safnið er opið út september kl. 10-17 alla daga.

Sjósvölu sleppt

11.09.2015

Þessa dagana eru það ekki einungis pysjur sem við eigum von á að finna á götum bæjarins. Fjölda fýlsunga hefur þegar verið bjargað og nú eru sjósvölur einnig byrjaðar að yfirgefa hreiður sín. Seinna í mánuðinum má svo eiga von á skrofuungum. Sjósvalan á myndinni er sú fyrsta sem komið hefur í Sæheima þetta haustið. Hún fannst við FES og var hugsanlega að koma úr Elliðaey eða Bjarnarey, en þar eru stórar sjósvölubyggðir. Hún reyndist 47 grömm að þyngd og er það svipað og sjósvölurnar hafa verið, sem við höfum vigtað síðustu haust. Var henni gefið frelsi eftir stutt stopp á safninu og flaug hún langt á haf út. 

Angie fær heimsókn

10.09.2015

Lundadaman Angie Andradóttir hefur verið í pössun hjá okkur í Sæheimum í nokkrar vikur. Andri kom í heimsókn í dag og urðu þá miklir fagnaðarfundir hjá þeim. Angie lyftist öll upp um leið og hún heyrði í Andra og sýndi ást sína meðal annars með því að bíta í eyra hans.

Gullglyrna

10.09.2015

Komið var með gullglyrnu í Sæheima sem fundist hafði við Sorpu. Gullglyrnur eru flækingar hér á landi og berast oft frá Evrópu með sterkum vindum og hafa fundist víða um land. Þær eru af ættbálki netvængja, en birkiglyrna er eina tegund þessa ættbálks sem lifir hérlendis. 

Gullglyrna er mjög fallegt skordýr. Bolurinn er fagurgrænn með gulri rönd eftir honum endilöngum. Vængirnir eru gagnsæir með áberandi æðaneti. Augun eru hvelfd, gulgræn og gljáandi og dregur tegundin nafn sitt af þeim. Fullorðnar gullglyrnur nærast á frjókornum og blómasafa en lirfurnar éta blaðlýs.

Sjá nánar á:  http://www.ni.is/poddur/flaekingar/poddur/nr/973 

Fyrsta lundapysjan

08.09.2015

Fyrsta lundapysja sumarsins var að koma í hús. Það voru þau Erna og Sigurður sem fundu hana inni í Herjólfsdal.  Pysjan var mjög smá en þó ekki dúnuð. Hún var 167 grömm að þyngd og vænglengdin 120 mm. Var henni boðin loðna og tók hún vel til matar síns og virkar spræk þó smávaxin sé.

Nú er um að gera að taka bryggjurúnt á kvöldin með pappakasana klára í skottinu og hafa augun hjá sér.

Urrari

02.09.2015

Georg á Bylgju VE færði safninu þennan urrara sem veiddist á um 40 faðma dýpi suður af Eyjum. Stöku sinnum hafa safninu verið færðir urrarar og hefur gengið mjög illa að halda þeim á lífi, því þeir virðast mjög viðkvæmir fyrir því að vera dregnir upp af einhverju dýpi. Sundmaginn belgist þá upp og þeir ná ekki að jafna sig á þrýstingsmuninum milli botnsins og yfirborðsins. Þessi virtist þó vera fljótur að jafna sig og vonandi lifir hann áfram því að urrarar eru mjög sérkennilegir og fallegir fiskar og gaman að hafa einn slíkan á safninu. 

Urrarar eru botnfiskar sem lifa á grunnsævi í hlýjum og tempruðum höfum. Um 100 tegundir þeirra eru þekktar í heimshöfunum en aðeins ein tegund lifir við Ísland og er hann í hlýja sjónum undan suðurströndinni. Urrarar hafa sundmaga og geta gefið frá sér hljóð með hjálp hans og er nafn þeirra dregið af þeim eiginleika. Annað sérkenni þeirra er að þeir geta staulast um botninn á eyruggunum. 

Heimild: Íslenskir fikar eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson

 

Síðustu ritunum sleppt

29.08.2015

Í sumar hefur verið komin með mikinn fjölda rituunga á safnið og hefur því ritusveit Sæheima haft í nógu að snúast. Ungarnir hafa fallið úr hreiðrum sínum við Skiphella og hafa börnin í ritusveitinni farið nánast daglega að leita að ungum undir bjarginu. Fá þeir vel að éta og þegar þeir eru fullvaxnir er þeim gefið frelsi. Börnin í ritusveitinn eru öll byrjuð í skólanum og því voru það bræðurnir Örn og Óðinn sem sáu um að sleppa síðustu rituungum sumarsins. 

Pysjutíminn nálgast

25.08.2015

Nú á næstu dögum er von á fyrstu lundapysjunum í bæinn og er því um að gera að hafa augun hjá sér þegar kvölda tekur. Eins og undanfarin ár verður Pysjueftirlitið starfrækt hjá Sæheimum og hvetjum við alla til að koma þangað með pysjurnar sem finnast í vigtun og vængmælingu. Pysjueftirlitið er að gefa okkur mikilvægar upplýsingar um fjölda og ástand lundapysja hvert ár.

Svo er um að gera að fara strax og sleppa pysjunum á góðum stað. Það er mikilvægt að sleppa pysjunum eins fljótt og mögulegt er eftir að þær finnast. Hver dagur í haldi dregur úr lífslíkum þeirra og er þetta sérstaklega mikilvægt núna þegar fáar pysjur eru að komast á legg. Einnig skal varst að meðhöndla þær mikið því að við það missa þær fituna úr fiðrinu sem er þeim svo mikilvæg og gerir þeim kleyft að halda vatni frá líkamanum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrusofu Suðurlands eru ungar í um 15% lundaholanna á rannsóknasvæði þeirra og eigum við því ekki von á mörgum pysjum þetta árið.

Kóngasvarmi

25.08.2015

Þetta stóra og flotta fiðrildi kom um borð í Sigurð VE þegar hann var að veiðum fyrir austan land. Um er að ræða fiðrildi af tegundinni kóngasvarmi, sem er árlegur gestur á Íslandi. Kóngasvarmar eru miklir fluggarpar og geta náð 55 km hraða á klukkustund. Þeir leggjast oft í langflug frá náttúrulegum heimkynnum sínum í heittempruðum svæðum og hitabeltislöndum . Hingað til lands koma þeir sérstaklega síðsumars. Kóngasvarmi er eitt stærsta skordýr sem berst til landsins og getur vænghaf hans verið allt að 12 cm. Hann er helst á ferli á myrkri en laðast að ljósi og flýgur stundum inn um opna glugga. Bregður þá mörgum í brún en ekert er að óttast því kóngasvarmi er alveg meinlaus þó hann sé stórvaxinn. 

Tóti 4 ára

20.08.2015

Í dag höldum við í Sæheimum upp á fjögurra ára afmæli Tóta lunda. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða dag hann klaktist úr egginu en 20. ágúst er mjög nálægt lagi. Tóti var um það bil viku gamall þegar komið var með hann á safnið til okkar þann 29. ágúst 2011.

Stelpurnar í 5. flokki Þróttar í knattspyrnu komu í heimsókn á safnið og sungu afmælissönginn fyrir Tóta.

Búningaskipti

19.08.2015

Margir spyrja sig þessa dagana hvort að sumarið sé búið. Hann Tóti lundi er alveg ákveðinn í því að svo sé. Hann er langt kominn með að skipta yfir í vetrarbúninginn sinn og er nokkuð langt á undan frændum sínum sem lifa villtir. 

Eins og sjá má á myndinni er hann talsvert öðruvísi útlits en lundi í sumarbúningi. Hvíta spöngin við nefrótina er horfin og guli bletturinn í munnvikinu er vart greinilegur lengur. Einnig hafa plötur fallið af goggnum ásamt plötunum sem mynda þríhyrninginn umhverfis augun. Tóti er er einnig að dökkna í vöngum. Alla jafna sjáum við ekki þessar breytingar eiga sér stað hjá lundum í náttúrinni því að þeir hafa yfirgefið varpstöðvarnar þegar þær verða.