Fréttir

Síðasta pysjan ?

20.10.2015

Í gær var einungis komið með tvær pysjur í pysjueftirlitið og enga í dag. Það er því spurning hvort að pysjufjörinu þetta árið sé nú lokið. Reyndar ekki seinna vænna þar sem kominn er 20. október.

Þessar stelpur eru svo heppnar að eiga ömmu í Vestmannaeyjum, sem þær heimsóttu um helgina. Að sjálfsögðu var farið í pysjuleit og fundu þær eina pysju á föstudagskvöldinu. Var hún mjög lítil og dúnuð og var því höfð í gistingu í Sæheimum í þrjá daga. Þær sóttu pysjuna sína í dag og hafði hún þá þyngst talsvert og losnað að mestu við dúninn. Hafði hún einnig verið sett á sundnámskeið þar sem hún stóð sig með stakri prýði. Stelpurnar náðu því að sleppa pysjunni sinni áður en þær héldu heim á leið. 

Fimm pysjur í dag

18.10.2015

Í dag var komið með fimm lundapysjur í pysjueftirlitið. Heildarfjöldi pysja þetta haustið er því kominn upp í 3824. Mæðgurnar Ester og Bríet komu með tvær pysjur í vigtun og mælingu í dag. 

Safnið mun verða opið kl. 13-16 næstu daga eða þar til síðasta pysja haustsins lætur sjá sig.

Enn koma pysjur í bæinn

17.10.2015

Kominn er miður október og enn eru pysjurnar að yfirgefa holurnar sínar og fljúga að ljósunum í bænum. Svo lengi sem elstu menn muna hafa pysjurnar aldrei verið svo seint á ferðinni. Þeim fækkar þó dag frá degi, en í dag var komið með átta pysjur í pysjueftirlitið. Á myndinni er hún Kristel með aðra af pysjunum sínum, sem fundust við golfvöllinn. Pysjurnar eru nú orðnar 3819 alls.

Safnið verður opið á morgun, sunnudag, kl 13 -16 og tekið verður á móti pysjum og öðrum góðum gestum.

Styttri opnunartími

16.10.2015

Pysjunum hefur fækkað til muna og síðustu daga hefur aðeins verið komið með um tíu pysjur á dag í pysjueftirlitið. Samkvæmt auglýstri vetraropnun Sæheima á einungis að vera opið á laugardögum í október, en vegna pysjueftirlitsins þá framlengdum við sumaropnunartímann fram til dagsins í dag.

Núna um helgina ætlum við að stytta opnunartímann nokkuð þar sem pysjunum hefur fækkað svo mjög og munum hafa safnið opið bæði laugardag og sunnudag kl. 13 -16. 

 

Komnar 3800 pysjur

15.10.2015

Rétt í þessu kom Þórður Gunnarsson með pysju númer 3800 í pysjueftirlitið. Hann hefur verið mjög duglegur við að finna pysjur og fær þar dyggilega aðstoð frá fjöslkyldu sinni. Þessa síðustu daga koma flestir aðeins með eina pysju í einu í vigtun og mælingu en þau komu að sjálfsögðu með tvær. Pysjunum hefur fækkað mjög mikið og í gær var einungis komið með níu pysjur í eftirlitið.

Heimsókn frá Hong Kong

15.10.2015

Enn eru ferðamenn að koma til Eyja og breytir það greinilega öllu hvort siglt er til Landeyjahafnar eða ekki. Þetta par frá Hong Kong kom í heimsókn í Sæheima í morgun. Þeirra aðal markmið með ferðinni var að hitta Tóta lunda. Þau voru búin að plana hringferð um landið en breyttu þeirri áætlun þegar þau lásu um Tóta á netinu og ákváðu að koma til Vestmannaeyja í staðinn. Þau voru alsæl yfir að hitta Tóta og hreinlega brostu hringinn þegar þau fengu einnig að halda á lítilli lundapysju.

Ennþá að finnast pysjur

13.10.2015

Ennþá eru að finnast lundapysjur í bænum. Þeim hefur þó fækkað talsvert mikið síðustu daga. Í gær var komið með 41 pysju í pysjueftirlitið og í dag voru þær 29 talsins. Heildarfjöldinn er nú kominn upp í 3787 pysjur. Þær sem hafa komið síðustu daga eru margar frekar léttar. Það vinnur gegn þeim að vera bæði léttar og seint á ferðinni en á móti kemur að veðrið hefur verið óvenju milt og vonandi komast þær í fljótlega æti í sjónum og ná að fita sig aðeins fyrir ferðalagið.

Stormsvala

11.10.2015

Eins og ungar lundans, fýlsins, skrofunnar og sjósvölunnar þá fljúga ungar stormsvölunnar stundum að ljósunum í bænum. Þeir eru seinna á ferðinni en fyrrnefndir ungar og kom fyrsti stormsvöluungi haustsins í Sæheima í dag. Nokkuð stór stormsvölubyggð er í Elliðaey og má telja líklegt að unginn hafi flogið þaðan. Þetta eru ekki einungis síðbúnustu ungarnir heldur einnig þeir allra smæstu. Stormsvala er minnsti sjófugl í Evrópu og er á stærð við snjótittling. Unginn var einungis 31 gramm að þyngd og ótrúlegt að hugsa til þess að þessir smávöxnu fuglar geti tekist á við haustlægðirnar hér við Ísland. Unganum hefur verið sleppt og er nú líklega á leið suður á bóginn, en stormsvölur halda sig á Suður Atlantshafi yfir vetratímann.  

Metið tvöfaldað

11.10.2015

Búið er að tvöfalda metið í fjölda lundapysja frá 2012, en þá var komið með 1830 pysjur í pysjueftirlitið. Núna eru pysjurnar orðnar 3717 talsins. Ennþá eru að finnast um 50 pysjur á dag og því má gera ráð fyrir að pysjufjörið haldi áfram nokkra daga til viðbótar.

Fleiri gjafir frá Drangavík VE

10.10.2015

Áhöfnin á Drangavík VE kom enn á ný færandi hendi á Fiskasafnið. Að þessu sinni komu þeir með kolkrabba, tindabykkju, gaddakrabba, humra og ýmislegt fleira. Bestu þakkir fyrir þetta strákar !

 

Opið um helgina

08.10.2015

Í dag var komið með 61 pysju í pysjueftirlitið og eru því alls komnar 3557 pysjur. Það er greinilegt að það er farið að síga vel á seinni hlutann á pysjutímanum þetta árið. Enn má þó búast við einhverjum pysjum og því um að gera að hafa augun hjá sér um helgina og kíkja eftir þeim. Á myndinni er Ingibjörg að koma með pysjuna sína í vigtun og mælingu.

Opið verður í Sæheimum um helgina kl. 10 - 17 bæði laugardag og sunnudag og tekið á móti pysjum og öðrum gestum. 

Pysjurnar orðnar 3500 talsins

08.10.2015

Það var hún Katla María sem átti pysju númer 3500 í pysjueftirlitinu. Þetta var spræk og vel gerð pysja sem fannst á Ásaveginum.

Pysjufjörið í rénun

07.10.2015

Eins og Skaftárhlaupið þá er pysjufjörið í rénun og komu einungis 114 pysjur í vigtun og mælingu í dag. Okkur hér í Sæheimum fannst þetta því frekar rólegur dagur en þetta eru þó fleiri pysjur en komu allt tímabilið í fyrra. Núna er fjöldi pysja þetta árið kominn upp í 3496 pysjur.

Líklega eru fullorðnu lundarnir að komast í smá tímapressu því að nú fer að líða að því að þeir felli flugfjaðrirnar og þá þurfa þeir að vera komnir á vetrarstöðvarnar. 

Aðeins færri pysjur í dag

06.10.2015

Nokkuð færri pysjur bárust pysjueftirlitinu í dag en síðustu daga. Þær voru þó 152 talsins og er því heildarföldi pysja kominn upp í 3382. Ennþá eru góðar líkur að finna pysjur á kvöldin og um að gera að kíkja eftir þeim. Eini kosturinn við það hve pysjurnar eru síðbúnar er að nú þarf ekki að bíða lengi eftir að verði dimmt, heldur er hægt að fara í pysjuleit fljótlega eftir kvöldmat. Á myndinni er Aron Sindrason með eina af pysjunum sínum, sem var númer 3350. 

Enn fullt af pysjum

05.10.2015

Enn eru að berast fjöldi pysja í pysjueftirlitið þrátt fyrir að kominn sé 5. október. Fólk er jafnvel að finna 10-15 pysjur á kvöldrúntinum. Í dag var komið með enn fleiri pysjur en síðustu daga eða samtals 262 pysjur. Núna eru þær orðnar 3231 talsins. Með sama áframhaldi ættum við að geta tvöfaldað árið 2012 þegar bárust 1830 pysjur. 

Komnar 3000 pysjur !

05.10.2015

Núna í hádeginu var komið með pysju númer 3000 í pysjueftirlitið. Það voru þau Sigmar, Lovísa og Bryndís sem komu með pysjuna ásamt 13 öðrum pysjum sem þau fundu í gærkvöldi.

Gjöf frá Drangavík

05.10.2015

Áhöfnin á Drangavík VE kom færandi hendi í morgun þegar þeir færðu safninu humra, sæfífla, gaddakrabba, kuðungakrabba og kolkrabba. Það er frábært fyrir safnið að fá slíkar gjafir og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Nálægt 3000 pysjur

04.10.2015

Enn eru pysjurnar að fljúga í bæinn og láta dagatalið eða veðrið ekkert trufla sig í þeim efnum. Í dag var komið með 239 pysjur í pysjueftirlitið og er það svipað og verið hefur síðustu daga. Heildarfjöldi pysja er kominn upp í 2969 og ekki spurning að nú í vikunni verða þær komnar yfir 3000. Líklega náum við því marki strax á morgun. Minnsta pysjan sem komið hefur verið með í eftirlitið var vigtuð í dag og reyndist vera aðeins 137 grömm að þyngd. Hún var ekki aðeins mjög létt heldur einnig mjög dúnuð. Fékk hún gott heimili og með góðri umönnun ætti hún að vera klár í slaginn eftir nokkra daga.  

Meðan pysjurnar eru enn að berast verður áfram opið á safninu kl. 10 -17 alla daga. 

Sami fjöldi pysja

03.10.2015

Í dag var aftur komið með 232 pysjur í vigtun og mælingu hjá pysjueftirlitinu og eru pysjurnar því orðnar 2730 alls. Það voru heppnar pysjur sem fengu húsaskjól hjá mannfólkinu síðustu nótt því að hitastigið var við frostmark og mikil viðbrigði frá notalegri holunni sem þær voru að yfirgefa. Ekki blæs heldur byrlega fyrir þær á morgun því að þá spáir mjög hvassri austanátt og mikilli rigningu.

Fleiri í dag en í gær

02.10.2015

Ekkert lát  virðist vera á pysjufjörinu því að í dag var komið 232 pysjur í pysjueftirlitið. Þær eru því orðnar 2497 samtals. Nokkrar af pysjunum síðustu daga hafa verið bæði litlar og dúnaðar og því þarf að ala þær í nokkra daga áður en þeim er sleppt á haf út. Fólk hefur verið ótrúlega duglegt að taka þessa litlu hnoðra að sér og erum við mjög þakklát fyrir það. Pysjur éta þó ekki kex eins og ætla mætti af myndinni, en kjósa heldur hráan fisk og rækjur t.d. Svo er líka hægt að fá loðnur hjá okkur til að gefa heimaöldum pysjum. Opið verður í Sæheimum um helgina bæði laugardag og sunnudag kl. 10-17.